,,Ef þú ert ekki góður eða ríkur, þá viltu vera víkingur því þar er hugsað um meðalmanneskjuna alla daga“ sagði Gunn Enli prófessor í fjölmiðlafræðum við Oslóarháskóla í áhugaverðu erindi á málþingi Reykjarvíkurakademíunnar og samstarfsaðila í Iðnó þann 19. nóvember 2016. Málþingið bar yfirskriftina „Fjölmiðlun í almannaþágu“.
Erindi sitt um norrræna módelið á fjölmiðlasviðinu „The Media Welfare State: Public Service Broadcasting in the Nordic Region (Fjölmiðlavelferðarríkið: Almannaútvarp á Norðurlöndum) byggði Gunn Enli að hluta til á bókinni The Media Welfare State sem hún er meðhöfundur að.
Samfélagið tryggir öllum þegnum sjónvarps- og útvarpsútsendingar
Mikil tengsl eru milli norræna velferðarkerfisins og fjölmiðla á Norðurlöndum. Enli segir að kenningin um fjölmiðlavelferðarríkið hvíli á sama grunni og norræna velferðarríkið. Norrænu löndin mynda sérstaka menningar- og landfræðilega einingu í heiminum og þótt löndin séu ólík innbyrðis, deila þau sameiginlegri pólitískri, félagslegri og efnhagslegri sýn á norræna módelið. Á Norðurlöndunum er almannaútvarp hornsteinninn í fjölmiðlavelferðarríkinu. Sjálfsagt þykir að allir eigi síma, sjónvarp og útvarp, óháð búsetu eða tekjum. Samfélagið tryggir sjónvarps- og útvarpsútsendingar til allra, segir Gunn Enli og bætir við ,,Þá skiptir ekki máli hvort þú býrð á minnsta stað í Noregi eða á hæsta fjalli. Norræna velferðarmódelið er hluti af menningu þjóðanna og byggir á lýððræðishugsun sem hingað til hefur verið ráðandi á Norðurlöndunum“.
Áherslurnar komi frá fólkinu sjálfu
Enli segir að áherslur fjölmiðla séu misjafnar eftir löndum. Fjölmiðlun á Norðurlöndum gerir ráð fyrir að áherslurnar komi frá almenningi. Á Bretlandi stýri breskir fjölmiðlar umræðunni hins vegar ofan frá og niður en bandarískir fjölmiðlar mati hins vegar neytendur með áherslu á markaðshyggju.
,,Það er minni munur á fátækum og ríkum á Norðurlöndunum en á Englandi. Þar er stéttarskiptingin meiri. Elítan, menntafólkið, yfirstéttin, millistéttin og verkamannastéttin“.
Enli bendir ennfremur á að Evrópusambandið hugsi út frá markaðsjónarmiðum og leggi meiri áherslu á tölfræði en menningu. ,,ESB er efnahags- og friðarbandalag og er eiginlega ekki áhugasamt um menningu. ESB er upptekið af því að keppa við Ameríkumarkað. Evrópa keppir við Hollywood í framleiðslu á kvikmyndum og sjónvarpsseríum“ segir Enli og bætir við að Evrópusambandið geri sér vonir um að geta stækkað markaði sína á kostnað þess bandaríska.
,,Þeir verða að tryggja öflugt og sterkt almannaútvarp“
Gunn Enli segir að umræðan um fjölmiðlun í almannaþágu á Norðurlöndum muni snúast um hlutverk almannafjölmiðla og hvernig tækni, samfélags-, efnahagslegar og pólitískar breytingar hafi áhrif. ,,Stjórnvöld þurfa að vera vakandi gagnvart hættunni á að menning og mál geti horfið. Þeir verða að tryggja öflugt og sterkt almannaútvarp“. Almannafjölmiðlar fá ákveðna fjárveitingar sem eru mismunandi milli landa. Enli segir að almannafjölmiðill verði að halda sig innan marka fjármheimilda. ,,RÚV hefur fjárhagsleg forréttindi og getur tekið meiri áhættu í framleiðslu efnis en einkaaðilar“ segir Enli og bendir á að RÚV þurfi að þjónusta markaðinn og styðja á sama tíma við einkaaðila. Hún bendir á að það geti reynst erfitt að finna hvar markalínan liggur og telur árekstra milli almannafjölmiðla og einkafjölmiðla í góðu lagi. Umræðan eigi að vera lifandi, enf um leið verða þessir aðilar að vinna saman, sérstaklega vegna smæðar landanna .
,, Skandinavíu viljum við ekki leggja niður “
Ritið Fjölmiðlavelferðarríkið (The Media Welfare State) er mikilvægt innlegg í rannsóknir á velferðaríkjum. Þetta er nýstárleg, tímabær og lýsandi umfjöllun um framtíð almannafjölmiðla og landsfjölmiðla í stafrænum heimi hnattvæðingar, markaðsvæðingar og boðvalds sem ekki er einskorðuð við Norðurlöndin, segir Gunn Enli. Hún segir ESB vera upptekið af því að keppa við Ameríkumarkað en ,,Skandinavíu viljum við ekki leggja niður og það sama á við um velferðarríkið. Það er því mikilvægt að stjórnmálamenn standi vaktina“.
,,Hvernig komust Íslendingar í þá stöðu að vera stærri en þeir stóru?“
Árangur Íslendinga á EM í fótbolta og víkingaklappið beindu kastljósinu að Norðurlöndum og áhugi á þeim hefur aukist, segir Enli. Hún tekur sem dæmi að norræna velferðarríkið hafi til umræðu í framboði Bernie Sanders í bandarísku forsetakosningunum. Norræn efnahagsmál hafa einnig verið í deiglunni og The Economist sagði að næsta súpermódelið væri norræna módelið. ,,Ef þú ert ekki góður eða ríkur þá viltu vera víkingur því þar er hugsað um meðalmanneskjuna alla daga“ sagði Gunn Enli í erindi sínu.
Eitt ríki eða fimm ólík?
Er hægt að tala um norrænu ríkin sem eitt ríki eða fimm ólík? ,,Það er margt líkt með Norðurlöndunum sem er ólíkt því sem gerist annars staðar í heiminum á vissum sviðum. En löndin fimm eru þó ólík innbyrðis og þau eiga líka margt sameiginlegt með öðrum löndum“ segir Enli og bendir á mismunandi stærð landanna, íbúafjölda, tungumál og menningu. Í erindi Enli kom fram að Noregur er þekktur fyrir olíusjóð, Ísland fyrir eldgos, Finnland fyrir sána, Svíþjóð fyrir kjötbollur og Danmörk fyrir hönnun. Norðurlöndin raða sér meðal 10 efstu í könnunum sem snúa að málfrelsi, trausti og breytingum í fjölmiðlaumhverfinu. Samstaða er um opinbera fjármögnun fjölmiðla í almannaþágu, þó það sé gert með mismunandi hætti hjá Norðurlandaþjóðunum.
,,Gaman að koma aftur til Íslands“
,,Við eigum að vera stolt af því að vera Norðurlandabúar“ sagði Gunn Enli og bætti við að leggja ætti meiri áherslu á samvinnu fjölmiðla í almannaþágu og almennra fjölmiðla. Fjölmiðlum í almannaþágu beri að styðja við aðra fjölmiðla. ,,Ráðstefnan var mjög áhugaverð, mjög jákvæð, tímasetningin góð fyrir ráðstefnuna og þörf. Það var gaman að fá boð um að koma og ég stolt af því að hafa komið. Hér er gott að vera og gaman að koma aftur til Íslands eftir 15 ár“ sagði Gunn Enli.
Hver er Gunn Enli?
Gunn Enli er prófessor í fjölmiðlafræði við deild fjölmiðla og boðskiptafræða við Oslóarháskóla í Noregi. Hún hefur verið gestaprófessor við University of Indiana í Bloomington og London School of Economics. Enli hefur m.a. rannsakað opinbera stefnumótun um fjölmiðlun, samfélagsmiðla, samskiptakenningar og pólitísk samskipti. Hún hefur skrifað og ritstýrt fræðibókum og skrifað fjölda fræðigreina og bókakafla. Gunn Enli situr í ritstjórn tímaritanna Media Culture and Society og Social Media + Society. Hún er umsjónarmaður verkefnis um samfélagsmiðla og kosningabaráttu á vegum Norska rannsóknarráðsins.