Illugi Gunnarsson um fjölmiðlaumhverfið í dag: ,,eins og að drekka úr brunaslöngu”.

Illugi Gunnarsson
Illugi Gunnarsson, fyrrverandi mennta- og menningarmálaráðherra

Í erindi sínu á málþingi um útvarp í almannaþágu kom Illugi Gunnarsson, mennta-og menningarmálaráðherra, meðal annars inn á nýafstaðnar kosningar í Bandaríkjunum og á Íslandi og setti þær í samhengi við fjölmiðlun. Illugi lýsti þeirri skoðun sinni að verkefni fjölmiðla í almannaþágu yrði í auknum mæli að sannreyna staðreyndir. 

Skýru línur gömlu flokksblaðanna

Illugi sagði gestum málþingsins frá því þegar hann, sem lítill drengur, bar út Þjóðviljann og spurði þá föður sinn hvort hann mætti ekki bera út Morgunblaðið í leiðinni. Faðir hans hafi tekið það óstinnt upp og sagt þvert nei. „Í gamla daga, þegar ég var að alast upp, þá voru hér flokksblöð. Þau voru gefin út undir alveg skýrum formerkjum“, segir Illugi og varpar fram þeirri spurningu þetta hafi verið gott eða vont fyrirkomulag. „Já, augljóslega hafði þetta galla en þetta hafði líka þann kost að í þessum blöðum komu fram sjónarmið stjórnmálaflokkanna, það var alveg skýrt hver var að segja hvað og almenningur gat þá, eftir atvikum, lesið sér til og dregið ályktanir, vitandi það úr hvaða átt þessir fjölmiðlar voru að koma“. Illugi kveðst hafa mestar áhyggjur af þeirri stöðu sem komin er upp „þegar það er orðið vonlaust fyrir almenning að rekja uppruna fréttarinnar eða upplýsinganna og útilokað að menn geti gefið sér tíma í að sannreyna þær eða staðreyna.“

Að sannreyna staðreyndir

Illugi segir framboðið af upplýsingum vera orðið gríðarlegt. „Ég hef stundum líkt því við að reyna að drekka úr brunaslöngu. Krafturinn og magnið er þvílíkt að maður hefur aldrei áhyggjur af því að menn skorti upplýsingar og þá reynir á þetta hlutverk fjölmiðlunar í almannaþágu að tryggja að til staðar  séu upplýsingar sem fólk geti dregið ályktanir af og komist að niðurstöðu.“

Fjölmiðlaumhverfi Bandaríkjanna í aðdraganda kosninga

Illugi veltir hann því fyrir sér hvort framtíðarhlutverk fjölmiðlunar í almannaþágu muni í auknum mæli vera eins konar staðreyndarvakt. „Við sjáum þetta í fjölmiðlum þessa dagana, við sáum þetta í forsetakosningunum í Bandaríkjunum og í kosningunum hér núna nýverið, að það er vaxandi þáttur í fjölmiðluninni að staðreyna, að finna út hvort upplýsingarnar séu réttar eða rangar. Í þessum gríðarlega flaumi þar sem hægt er að ná sér í hvaða fréttir sem er, hvenær sem er, í gegnum það að snerta skjáinn á símanum sínum, kann þetta að verða vaxandi hlutverk hjá fréttastofu ríkisins“, segir Illugi.

„Það er mjög áhugavert að fylgjast með umræðu í Bandaríkjunum eftir forsetakosningarnar og sjálfsgagnrýni og skoðun fjölmiðlanna á sjálfum sér. Mér fannst merkilegt að heyra að fjölmiðlar sem voru mjög andsnúnir þeim sem kosinn var í forsetaembættið velti því nú fyrir sér hvort þeir hafi í raun gert þessum sama forsetaframbjóðanda greiða með umfjöllun sinni og hafi með framsetningu sinni jafnvel skipt lykilmáli í því að hann var kosinn.“