Í erindi sínu, „Hversdagsleg stef: Hugrenningar um hvernig útvarp í almannaþágu er vegið og metið“, varpar Dr. Gauti Sigþórsson, fagstjóri í fjölmiðlun við háskólann í Greenwich, kastljósi á söguleg tilvistarrök almannaútvarps. Gauti segir að fyrst og fremst hafi verið færð þríþætt rök fyrir tilvist útvarps í almannaþágu: framleiðsla efnis, varðveisla og borgaralegt samfélag. Gauti telur að almannaútvarp geti betur þjónað notendum sínum og rækt þessi hlutverk með því að bjóða upp á notendamiðaðra almannaútvarp. Hið hefðbundna form línulegrar dagsskrár telur Gauti að henti sumum dagsskrárliðum en öðrum ekki. Til séu aðrar notendamiðaðri miðlunarleiðir sem henti betur á kappsömum fjölmiðlamarkaði.
Margvísleg módel almannaútvarps
Dr. Gauti segir að til séu margar útfærslur almannaútvarps, þar á meðal bandaríska málfrelsismódelið. „Í Bandaríkjunum er miklu meira lagt upp úr málfrelsi; hugmyndinni um að það þurfi að halda almannavettvanginum eins opnum og hægt er.“ Gauti segir bandarískt almannaútarp byggjast á frjálsum fjárframlögum. „Það er grundvallarhugmyndin og PBS og NPR eru regnhlífarsamtök fyrir smærri útvarpsstöðvar úti um allt land.“ Breska módelið sé hins vegar mjög líkt því norræna, það hafi sömu borgaralegu virknina og einkunnarorðin séu að upplýsa, skemmta og fræða. „Í Bretlandi er þetta blandaða kerfi“. Ríkisútvarpið BBC sé hluti af flóru annarra fjölmiðla og segir Gauti að BBC sé hreinlega drifaflið á fjölmiðlamarkaði Bretlands. Channel 4 sé einnig almannaútvarp í þeim skilningi að stöðin fái rými á útvarpsbylgjulengdinni. „Það myndu allir kvarta hástöfum ef BBC yrði lagt niður á morgun því þaðan kemur drifkrafturinn í til dæmis sjónvarpsframleiðslunni fyrir heilan útflutningsgeira.“ Gauti segir danska módelið hafa fengið ýmislegt að láni frá hinu breska. „Nú eru Danir líka orðnir útflytjendur sjónvarpsefnis á sama hátt og Bretar urðu í tengslum við BBC“, segir Gauti.
„Það myndu allir kvarta mjög hátt ef BBC yrði lagt niður bara á morgun því að þaðan kemur drifkrafturinn í til dæmis sjónvarpsframleiðslunni fyrir heilan útflutningsgeira.“
Gauti segir danska módelið hafa fengið ýmislegt að láni frá hinu breska. „Danir eru orðnir útflytjendur sjónvarpsefnis á sama hátt og Bretar urðu í tengslum við BBC“, segir Gauti.
Línuleg útsending og notendastýrt almannaútvarp
Spurður að því hvort ekki sé kominn tími til að almannaútvarpið aðlagi sig í ríkara mæli að nútímanum, svarar Gauti: „ Það er enginn heilvita fjölmiðlafræðingur að halda því fram að línuleg dagsskrá sé að fara að leggjast niður á morgun en það er augljóst að miðjan í okkar fjölmiðlaumhverfi, fyrir mjög marga, er snjallsíminn. Við fáum okkar efni í gegnum breiðband.“ Hann telur að línuleg útsending muni endast í nokkra áratugi í viðbót enda sé margt sem henti henni mjög vel, eins íþróttir og ýmsir viðburðir, og almannaútvarp gegni einnig ákveðnu öryggishlutverki. En Gauti segir að til séu aðrir möguleikar en hin línulega útsending.
„Ábyrgð almannaútvarpsins held ég að ti að felast í því að „filtera“ efnið fyrir notendur og gera það aðgengilegt.“
Gallerísýning í gagnasafni almannaútvarpsins
Berst talið þá að gagnasafni almannaútvarps en Gauti telur aragrúa möguleika búa í slíkum gagnasöfnum. Verkefnið kalli einungis á virka stýringu. „Við nálgumst mjög mikið af fjölmiðlaefni ólínulega og þá skiptir máli hvernig það er borið á borð, hvernig búnar eru til tengingar, hvernig efnið er gert aðgengilegt. Þá er þetta spurning um það hvernig fjölmiðlar í almannaþágu geta gert almannavettvanginn aðgengilegan.“ Fyrsta skrefið, telur Gauti vera að flokka efnið á kerfisbundinn hátt og það næsta að gera einhvern hluta þess aðgengilegan. Í því samhengi varpar hann fram hugmynd: „Væri hægt að vera með eitthvað líkt og gallerísýningu? Getur einhver komið inn í safn ríkisútvarpsins og leitað uppi ákveðið efni, fundið upptökurnar og gert þær aðgengilegar undir einhverju ákveðnu þema? Það eru ótal þemu sem gætu komið upp, til dæmis slangur – gætirðu búið til sýningu út frá slangri? Sýning er kannski ekki rétta orðið – öllu heldur samsetning af upptökum um slangur úr fórum ríkisútvarpsins síðustu þrjátíu, fjörtíu ár.“
Gagnasafn framtíðarinnnar
Í lokin vísar Gauti til orða Jóns Ólafssonar, prófessors í heimspeki, sem segir það vera ábyrgð okkar gagnvart framtíðinni að búa til gagnasafn framtíðarinnar. Þá sé það líka hluti af starfsemi almannafjölmiðils „að taka áhættu með hluti sem líta ekki út fyrir að vera augljós „success“ í upphafi.“