Málþingsröð ReykjavíkurAkademíunnar ,,fjölmiðlun í almannaþágu” fjallar um fjölmiðla sem sinna almannaþjónustu.  ses vinnur nú að undirbúningi tveggja málþinga um fjölmiðlun í almannaþágu (e. Public Service Broadcasting), hið fyrra 19. nóvember næstkomandi en hið síðara í byrjun árs 2017. Með hugtakinu er átt við fjölmiðlun sem miðar að því að vera til hagsbóta fyrir hinn almenna borgara en ekki til viðskiptalegs ávinnings fyrir eigendurna. Oft á tíðum er þess konar fjölmiðlun fjármögnuð úr ríkissjóði rétt eins og hér á landi þar sem Ríkisúvarpið (RÚV) hefur haft þetta hlutverk með höndum þó ákveðnar skyldur séu einnig lagðar á einkareknu fjölmiðlana um fjölmiðlun í þágu almennings. Hin síðari ár hefur sérstaða RÚV valdið titringi á fjölmiðlamarkaði og þá sérstaklega með hliðsjón af samkeppnisstöðu gagnvart einkarekinni fjölmiðlun.

Markmiðið með málþingsröðinni er að skapa gagnrýna og fræðilega umræðu um málefnið þar sem helstu sjónarmið fái notið sín; umræðu sem horfir til framtíðar og er óháð hagsmunum starfandi fjölmiðla. Til að gefa viðfangsefninu fræðilega breidd sem nær út fyrir smæð íslensks samfélags hafa verið kallaðir til fjórir fræðimenn sem sinna fjölmiðlarannsóknum við erlenda háskóla, þar af einn Íslendingur. Þetta eru:

Til að gefa viðfangsefninu fræðilega breidd sem nær út fyrir smæð íslensks samfélags hafa verið kallaðir til fjórir fræðimenn sem sinna fjölmiðlarannsóknum við erlenda háskóla. Þetta eru:

  • Michael Tracey,prófessor í fjölmiðlafræðum við Háskólann í Colorado
  • Gauti Sigþórsson, fagstjóri í miðlun við Háskólann í Greenwich, London
  • Gunn Enli, prófessor í fjölmiðla- og boðskiptafræðum við Oslóarháskóla
  • Henrik Søndergaard, prófessor í fjölmiðlafræðum við Kaupmannahafnarháskóla.

Fræðimennirnir munu heiðra okkur á fyrra málþinginu, þann 19. nóvember með umfangsmiklum erindum um eðli og starfsemi fjölmiðlunar í almannaþágu. Að erindunum loknum verður pallborðsumræða um viðfangsefnið þar sem fagfólk hérlendis, með sérþekkingu á viðfangsefninu, mun ræða afstöðu sína og svara fyrirspurnum úr sal. Á fyrra málþinginu verður eftirfarandi spurningum velt upp:

  • Hvað skilgreinir fjölmiðlun í almannaþágu? Hvert er hlutverk hennar og markmið?
  • Fyrir hverja er hún?
  • Skiptir rekstrarformið máli? Þarf fjölmiðlunin að vera tengd einni rekstrarstofnun eða má hún dreifast á hendur fleiri aðila?
  • Skipta landfræðilegir hagsmunir máli?
  • Hvernig er lagaumhverfi fjölmiðlunar í almannaþágu háttað erlendis og hérlendis? Hefur Ísland einhverja sérstöðu?
  • Hvernig er tíðniúthlutun háttað? Er úthlutunin kvótabundin? Má draga þá ályktun að tíðnisviðið sé takmörkuð náttúruauðlind líkt og t.d. fiskurinn í sjónum?
  • Hvaða áhrif hefur tækniþróun síðustu ára haft á fjölmiðlun almennt?
  • Er hægt að koma í veg fyrir hagsmunatengsl? Getum við tryggt óháða fjölmiðlun?
  • Hvaða leiðir eru hentugar í fjármögnun fjölmiðlunar í almannaþágu?
  • Hverjir stýra dagskrárgerð/efnisvali? Hvað með varðveisluskyldu efnis?
  • Hvað með samfélagslegt og menningarlegt gildi stofnana eins og RÚV, BBC, PBS, DR, NRK, o.s.frv?

Með niðurstöðu fyrra málþingsins í farteskinu mun seinni fundurinn (sem er áætlaður í febrúar 2017) beina sjónum sínum að íslenskum fjölmiðlamarkaði sérstaklega. Þar verður farið ofan í saumana á stöðunni í dag og skoðað hvert við stefnum. Ýmsir innlendir sérfræðingar á vettvangi fjölmiðlunar verða kallaðir til og þess kappkostað að umræðan verði bæði gefandi og fagleg. Með þessu framtaki vill ReykjavíkurAkademían leggja sitt af mörkum til að efla þekkingu þjóðarinnar á opinberum fjölmiðlum sem síðan nýtist íslenskum stjórnvöldum í stefnumótun á vettvangi fjölmiðla.

Stefnt er að því að málþingin verði ókeypis og að viðburðurinn verði aðgengilegur á netinu, annað hvort streymt beint eða hægt að hlusta eftir á.